Líkami Næring

6 ástæður af hverju þú borðar of mikið

Matur er góður. Það er nú eiginlega fyrsta ástæðan fyrir því af hverju við borðum svo mikið af honum. Matur bragðast vel. Og stundum, alveg rosalega vel. Sumir eiga þess vegna erfitt með að finna hvenær nóg er komið. Tímaritið Man´s Health nefnir sex ástæður fyrir því af hverju við eigum það til að „detta í´ða“ í mataræðinu, þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað:

1. Þú notar mat til að verðlauna þig (of oft)

Byrjaðu að taka eftir hvar og hvenær þú leyfir þér að borða eitthvað óhollt í óhófi vegna þess að þú heldur að þú eigir það skilið. Ef það er einu sinni eða oftar á dag eða jafnvel einu sinni á nokkurra daga fresti þá hefur þú komið auga á akkúrat þann tíma/stað/aðstæður þar sem þú þarft að breyta hugarfari þínu.

2. Þú segir of oft við sjálfa(n) þig: „What the hell.“

Kannski hljómar þetta kunnuglega. Þú færð þér eina sneið af pizzu en hugsar síðan: „What the hell, ég er hvort sem er búinn að klúðra þessu,“ og færð þér aðra sneið, og svo aðra og fleiri og meira. Vísindamenn kalla þetta meira að segja „What the hell áhrifin.“ Reyndu að hafa í huga að það er mikill munur hvort þú færð þér 300 kaloríu pizzusneið eða 1000 kaloríu flykki.

3. Þú ert of strangur/ströng við sjálfa(n) þig

Það versta sem þú getur gert er að lemja þig niður fyrir að fara út af sporinu og borða eitthvað drasl eða þegar viktin hreyfist ekki niður. Skömm getur dregið úr þyngdartapi. Lofaðu bara að gera betur næst. Það kemur dagur eftir þennan.

4. Þú borðar of mikið á veitingastöðum

Matur er góður á veitingastöðum, en þér gæti hætt við að borða of mikið þar einfaldlega vegna þess að skammtastærðin þar er of stór. Veitingastaðir vilja oftast að þú borðir mikið og vel, og borgir þeim meira. Mörg okkar eru alin upp við það að klára alveg allan mat af disknum. Stundum er þó hægt að panta hálfan skammt og borga og borða helmingi minna. Lykillinn hér er að hafa meðvitund og skipuleggja sig.

5. Þú ert annars hugar

Hversu oft borðar þú bara, og gerir ekkert annað? Án þess að lesa blaðið á meðan; skoða Facebook, horfa á sjónvarpið eða eitthvað annað? Rannsóknir hafa sýnt að fólk hættir til að gleyma hvað það setur inn um varirnar þegar það er að horfa á skjá sem leiðir til þess að það borðar of mikið. Borðaðu….og gerðu EKKERT annað og sjáðu hvað gerist. Reyndu að muna hvað það var sem þú borðaðir og njóttu matarins.

6. Þú ert of þreytt/-ur.

Skortur á svefni og þreyta skerðir getu þína til að hamla ofáti. Viljastyrkur minnkar með þreytu. Þreytan eykur líka streitu sem dregur úr viljastyrk. Reyndu hvað þú getur að ná 7-9 tíma svefni að jafnaði, ekki bara um helgar.

Heimild: Man´s Health