Ertu upptekin(n) við amstur hversdagsins en vilt lifa heilbrigðara lífi og líta betur út? Ef svo er, hættu þá öllum afsökunum og farðu út að labba! Labb er ekki bara til að komast leiðar sinnar heldur er það mjög árangursríkt til að komast í form. Vefsíðan lifehack.com tók saman helstu rök sem mæla frekar með því að ganga en að hlaupa til að léttast og bæta heilsu:
Byrjaðu í dag að ganga
Kyrrseta leiðir til ofþyngdar og lélegrar heilsu. Stattu upp og labbaðu um nágrennið. Skoðaðu göngustígana og njóttu útiverunnar. Settu einn fót fram fyrir annan. Reglubundin kraftganga, sem reynir á þig, getur verulega bætt heilsu þína og líf, eins og eftirfarandi upptalning sýnir:
- Þú þarft ekki að styrkja líkamsræktina um áskriftargjald
- Engin sérstök áhöld eða tæki eru nauðsynleg, bara góðir gönguskór
- Veitir þeir aukna orku og þrótt
- Lækkar blóðþrýsting
- Bætir skap þitt og sjálfstraust
- Hjálpar til við að draga úr kvíða og þunglyndi
- Spornar gegn sykursýki 2.
- Dregur úr líkum á að fá hjarta- og/eða heilablóðfall
- Hjálpar við að fá betri svefn
- Dregur úr bólgum í liðum og verkjum vegna liðagigtar
- Styrkir bein, vöðvavefi og liðamót
- Minnkar stress og þannig dregur úr líkum á hjartasjúkdómi
- Dregur úr slæma kólesterólinu (LDL)
- Hækkar góða kólesterólið (HDL).
- Brennir kaloríum
- Dregur úr líkum á illkynja krabbameinum
Af hverju þú ættir að ganga en ekki hlaupa
Thomas Jefferson á að hafa sagt að ganga væri besta æfingin. Gögn úr tveimur nýlegum rannsóknum bandarískra vísindamanna renna stoðum undir þá tilgátu að göngufólk grennist meira en hlauparar og að ganga sé hollari hreyfing en hlaup. Ganga dregur úr hjartasjúkdómum um 9.3% en hlaup draga úr sömu líkum um 4.5%
Hér eru fleiri kostir göngu fram yfir hlaup:
- Meiðsli eru fátíðari í göngu en hlaupi.
- Göngufólk getur labbað í hverju sem það klæðist. Eina sem þarf eru þægilegir skór.
- Höggið á líkamann við göngu er hálf líkamsþyngd á meðan höggið á líkamann við hlaup er þreföld líkamsþyngd.
- Ganga örvar heilastarfsemi og bætir athyglisgáfu og vinnsluminni. Sérstaklega ef gengið er í fallegri náttúru.
- Göngufólk svitnar minna en hlauparar og þurfa þess vegna ekkert að vesenast að fara í sturtu eftir útiveruna.
Byrjaðu að ganga, heilsu þinnar vegna
Gerðu hálftíma rösklega göngu á hverjum degi, nánast alla daga vikunnar, að lífstíl. Settu þér sem markmið að ganga 3km á þínum meðalhraða, 5 til 6 daga vikunnar. Markmiðið á að vera að koma þér af stað í reglubundna hreyfingu með lágmarks eymslum, meiðslum og volæði.
- Veldu góða gönguskó sem styðja vel við, helst með þykkum sólum sem draga úr höggþunga á líkamann.
- Ef þú kaupir íþróttaföt til að ganga í, veldu þá fatnað sem dregur í sig svita af húðinni.
- Settu þér göngumarkmið og verðlaunaðu þig fyrir hvern áfanga. Skráðu niður göngurnar í dagbók.
- Labbaðu hvar sem er, hvenær sem er. Ef það er skítaveður, labbaðu þá bara í Kringlunni eða Smáralind.
- Hitaðu upp með því að ganga hægt í fimm mínútur og gakktu síðan rösklega. Kældu þig niður með að ganga hægt síðustu fimm mínúturnar. Gerðu mjúkar teygjur eftir gönguna.
- Byrjaðu rólega og auktu síðan við hraða til að forðast eymsli í vöðvum og liðamótum. Eftir því sem þol og styrkur eykst áttu að geta gengið lengri vegalengd á lengri tíma.
- Byrjaðu með því að ganga í 5-10 mínútur á dag, þar til þú ert komin(n) upp í hálftíma göngu.
- Byrjaðu að gera meira ef þú ert nú þegar að hreyfa þig hálftíma á dag. Bættu við hreyfinguna með því að ganga upp stiga í stað þess að taka lyftuna; farðu úr strætó nokkrum stoppistöðum áður en þú átt að fara út og leggðu bílnum langt frá skrifstofunni. Nældu þér í litla aukahreyfingu hér og þar yfir daginn. Það telur.
- Gerðu styrktaræfingar, tvisvar í viku. Íhugaðu að nota létt handlóð til að styrkja efri hluta líkamans.
- Gerðu labbitúrinn að skemmtun. Bjóddu vini með eða gæludýri.
- Mundu að drekka nóg af vatni og berðu á þig sólarvörn þegar það á við.
Hafðu hugfast að röskleg ganga er frábær æfing sem bætir heilsu þína til muna. Hún er auðveld, ódýr og skynsöm leið til að halda þyngdaraukningu í skefjum. Vísindarannsóknir hafa sýnt að ganga gagnast líkamanum betur en hlaup.
Fyrirvari: Allt sem hér er sagt er til að upplýsa en ber ekki að taka sem læknisráði. Ráðfærðu þig við lækni þinn áður en þú byrjar á nýrri líkamsrækt og/eða æfingarprógrammi.