Amma í toppformi

Líkaminn byrjar að hrörna eftir því sem árunum fjölgar. Það er samt engin ástæða til að óttast. Þó svo þú gengur eða hleypur kannski ekki jafn rösklega og áður þarf það samt sem ekki að þýða að þú þurfir að hætta að hreyfa þig. Golf og tennis eru frábærar íþróttir fyrir þá sem eldri eru. Ef það höfðar ekki til þín má kannski snúa sér að kraftlyftingum.

Það gerði hún Shirley Webb sem er 78 ára að aldri. Hún hafði enga reynslu af lyftingum þar til í hitteðfyrra þegar barnabarn hennar sannfærði hana um að mæta á æfingu í líkamsræktarstöð. Síðan þá hefur þessi amma frá Illinois verið að pumpa járnið eins og ekkert sé.

Þegar hún byrjaði að lyfta gat hún varla gengið upp tröppurnar heima hjá sér án þess að styðja sig við handrið. Núna, aðeins tveimur árum síðar getur hún „deddað“ rúmum 110 kílóum og sér miklar framfarir á öllum sviðum lífs síns.

„Áður þurfti ég alltaf að styðja mig við eitthvað þegar ég þurfti að rísa upp frá gólfinu. Nú þarf ég ekkert slíkt og get staðið upp óstudd. Því meira sem ég legg á mig því betur líður mér.“  Fram kemur á wimp.com að hún hafi meira að segja keppt í kraftlyftingum í Illinois. Þar sé hún handhafi mets í lyftingum fyrir 75 ára og eldri.