Vissir þú að líffærin í þér eru mismunandi virk eftir því á hvaða tíma sólarhrings þau eru að störfum? Vísindamenn við American College of Chest Physicians (ACCP) hafa rannsakað dægursveiflur (circadian rhythm) í lungum og komist að þeirri niðurstöðu að þau eru oftast virkust í flestu fólki á milli klukkan 16 og 17 á daginn. Læknar eru sumir hverjir byrjaðir að taka mark á rannsóknum á dægursveiflum líffæra og miða lyfjagjöf til sjúklinga á þeim tíma sólarhrings sem hentar best því líffæri sem lyfjagjöfin á að ná til, að því er greint er frá á Sciencedaily. Fullyrt er að virknin sé oftast í lágmarki í kringum hádegið en nær hámarki síðdegis.
Boris I. Medarov, vísindamaður við Long Island Jewish Medical Center í New York, segir dægursveiflur stjórni svefninum okkar; virkni, úthaldi, brennslu og mörgum öðrum þáttum sem stjórnast af sólarljósi og myrkri sem líkaminn verður fyrir.
Rannsókn okkar hefur sýnt fram á að lungun hafa sinn eigin hrynjanda, ef svo má að orði komast, sem stjórna hversu mikla orku við höfum yfir daginn og hvenær er best að nýta þá orku.
Ef þú ert að æfa hlaup, hjól, sund eða hverja þá íþrótt þar sem þú vilt auka þol er þess vegna mælt með því að æfa síðdegis til að ná hámarks árangri og nýtingu lungna. Þá nýta þau súrefni betur, að því er niðurstaða rannsóknar hermir sem gerð var á fimm þúsund manns. Rannsóknin náði bara til starfsemi líffæra yfir daginn og vilja vísindamenn því ekki útiloka að lungun halda áfram að vera virk eftir klukkan 16 á daginn.