Sköpunargáfa. Breska rannsóknarmiðstöðin East of England stóð á dögunum fyrir spurningakönnun meðal almennings þar í landi um hvar fólk fær sínar bestu hugmyndir. Svarið kom nokkuð á óvart.
Flestir fá bestu hugmyndir sínar langt frá vinnustað sínum – uppi í rúmi undir sæng.
Þetta kemur okkur hér á Íslandi kannski ekki svo á óvart. Það var ekkert að ástæðulausu að Þorgeir Þorkelsson, Ljósvetningagoði, hafi lagst undir feld til að fá góða hugmynd um hvernig best væri að leisa deilur kristinna og heiðinna en þá var hann leiðtogi síðarnefndra. Feldurinn virkaði því skömmu síðar ákvað hann að Ísland skyldi vera kristið, en leyfa útburð barna, át á hrossakjöti og blót ef það væri gert í laumi.
Ef þig vantar góða hugmynd og örva sköpunargáfu þína skalt þú bara prófa að slökkva ljósin og fara upp í rúm og undir sæng. Taktu á móti hugmyndunum eins og þær koma. Þær bestu eru kannski þær sem þú manst ennþá eftir þegar þú vaknar.