Heilbrigði og form
Á hótelinu er dagskrá frá morgni til kvölds en það er engin skylda að gera allt sem þar er í boði. Það er alltaf val hvers og eins. Allar æfingar eru á því erfiðleikastigi sem hentar hverjum og einum. Ef orka er lítil, sérstaklega fyrstu dagana þá er ekkert að því að hvíla sig og hreyfa sig rólega. Sumir mæta í alla æfingatíma sem eru í boði alla daga, aðrir mæta þegar þeir eru í stuði og sumir mæta aldrei í neitt. Það eru engin boð og bönn.
Vert er að geta þess að frábærir þjálfarar eru á hótelinu, læknir, nuddarar og snyrtifræðingar. Allir opnir tímar með þjálfurum, aðgangur að spa þar sem er heitur pottur, lítil sundlaug, gufa og innfrarauð gufa eru innifaldir í verði sem við bjóðum ásamt sloppi í spa. Hótelið selur sjálft aðgang að sundleikfimi, nuddi og snyrtimeðferð.
Heilsuganga, hreyfing og næring
Dagurinn getur byrjað hjá sumum á morgunsundi með þjálfara og léttri leikfimi í vatninu sem tilheyrir hótelinu og þjóðgarðinum. Þar á eftir er boðið upp á stutta morgungöngu og teygjur sem þjálfari útskýrir mjög vel. Heilsuganga fer fram á þeim hraða sem hentar hverjum og einum.
Eftir morgunverð er boðið upp á Pilates-styrktarþjálfun með æfingarboltum.
Um klukkan 11 er hægt að reima á sig gönguskóna og fara í um 45. mín langa kraftgöngu.
Eftir teygjur og hádegisverð er boðið upp á styrktaræfingar fyrir bak, rass og læri.
Þá er einnig sundleikfimi í boði fyrir kvöldmat og heitt gufubað um kvöldið með þjálfara sem blakar handklæðinu til að hámarka hita og svita. Gott er að demba sér út í vatnið eftir gufuna til að kæla sig niður fyrir svefninn.
Vel búinn lyftingarsalur er á hótelinu fyrir þá sem vilja rífa í lóðin. Einnig er hægt að fá lánað hjól í afgreiðslunni til að hjóla um í skóginum
Hollusta og endurnæring á heilsuhóteli
Megin uppistaða matarins sem er í boði eru mettandi grænmetis- og ávaxtaréttir ásamt hollum djúsum. Þetta eru ekki hungurleikar og það á engin að verða svangur. Hægt er að nálgast súpu í afgreiðslunni ef svengd gerir vart við sig. Kokkarnir leggja sig fram um að bera matinn fallega fram svo hann bragðist einnig vel. Flestir velja grænmetis- og ávaxtafæði ásamt djúsum en einnig er hægt að fá mat sem telur samtals 800, 1200 eða 2000 kaloríur.