Allir geta upplifað flughræðslu á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. Vísindamenn við háskólann í Leiden í Hollandi hafa rannsakað sálfræðilegar orsakir fyrir flughræðslu hjá bæði körlum og konum og komist að því að rót óttans er mismunandi á milli kynja. Fimm þúsund manns, af báðum kynjum, voru í rannsókninni spurð í þaula um flughræðslu sína.
Margar konur eru fyrst og fremst hræddar við að hrapa niður en þær óttast líka að missa stjórn á tilfinningum sínum. Fjöldi þeirra nefndi einnig að þær fái innilokunarkennd í flugvélum.

Karlar sýna hinsvegar hefðbundin óttaviðbrögð við lofthræðslu en í grunninn stafar flughræðsla þeirra á því að þeir missi stjórnina á aðstæðunum – að þeir geti ekki ekki lagt hönd á stýri flugvélarinnar sjálfir og stjórnað henni í öryggt skjól.
Rannsóknin sýndi að fjórir af hverjum tíu beinlínis þjást af flughræðslu. Fjórða hver íslensk kona og tíundi hver karl segjast alltaf eða oft finna til hræðslu eða ótta við að fljúga, að því er fram kemur á doktor.is
Hvað er til ráða?
Í grein sem hægt er að lesa hér á doktor.is má finna nokkur góð ráð til að vinna gegn flughræðslu (stytt og endursagt):
- Undirbúðu flugið með því að kaupa farmiða í tæka tíð. Reyndu þitt besta til að forðast óttann og mættu neikvæðri hugsun með jákvæðri afstöðu.
- Reyndu að sofa vel daginn áður en þú ferð í flug.
- Pakkaðu niður nokkru áður en þú ferð, en ekki á síðustu stundu.
- Á leið í flugvélina og við flugtak skiptir máli að ætla sér að slaka á og beina athygli hugans að einhverju sem stuðlað getur að því. Hafa má í huga að hræðslutilfinning og kvíði fjarar alltaf út. Meðan á flugi stendur er rétt að vænta hins besta vegna þess að það eru hverfandi líkur á því að það sem fólk óttast muni eiga sér stað.
- Styttu stundir í fluginu og taktu með þér tímarit, uppáhalds tónlistina þína, bók, spil, krossgátur, vasatafl eða tölvuleiki. Auk þess er æskilegt að hafa með sér tyggjó eða brjóstsykur til að nota fái maður hellu fyrir eyrun.
- Í flugvélum er andrúmloftið þurrt. Það getur leitt til vanlíðunar, nema þess sé gætt að drekka nægilega mikið af vatni til að mæta vökvatapi. Talið er hæfilegt að drekka sem svarar einu glasi fyrir hverja klukkustund sem flogið er. Hyggilegt er að neyta hvorki áfengis né koffíns, sem getur örvað útgufun úr líkamanum og hægt á líkamsviðbrögðum. Það bætir líðan að borða mat á flugi.
- Gott er að standa upp og hreyfa sig á meðan á flugi stendur eða gera einfaldar líkamsæfingar í sætinu með því að hreyfa liði. Hreyfingarnar örva blóðrás og létta álagi á liði og vöðva. Æskilegt er að stunda slökun á leiðinni, til dæmis með því að hlusta á ljúfa tónlist. Slökunin hjálpar til að draga úr álaginu við flugferðina og óþægindum sem fylgja löngum ferðalögum.
- Gott er að fylgjast með því sem er að gerast inni í vélinni og heita sjálfum sér því að takast á við erfiðleika hvað sem á dynur. Ágætt er að hafa í huga að flugmennirnir hafi jafn mikinn áhuga á að komast á ákvörðunarstað og farþegarnir.
Að loknu flugi má líta yfir farinn veg, leggja á minnið það sem vel tókst og lofa sjálfum sér að gera betur næst.
Hér á landi hafa verið haldin námskeið fyrir flughrætt fólk. Tveir sálfræðinemar unnu verkefni þar sem árangurinn var metinn. Haft var samband við þá sem setið höfðu námskeiðin og spurt um atferli tengt flugi þann tíma sem liðinn var frá því námskeiðinu lauk. Kannaður var árangur af námskeiðunum, bæði til skamms tíma og lengri tíma. Reyndist hann mjög góður, að því er fram kemur á doktor.is.