Fótbolti er holl íþrótt

Fótboltamamman Dr. Mercedes Carnethon veit af hverju fótbolti er vinsælasta íþrótt í heimi. Það er auðvelt að spila fótbolta hvar sem er. „Allt sem þarf er bara bolti, mörk og smá pláss," segir Carnethon, sem starfar sem lýðheilsufræðingur.

Fótbolti og heilsan

Það er ekki bara gaman að horfa á fótbolta í sjónvarpinu heldur er líka skemmtilegt að spila leikinn. Og nú er að koma betur og betur í ljós að fótbolti er góður fyrir heilsuna. Augljós ávinningur er aukin loftháð virkni sem myndast við hlaup inni á vellinum.

„Leikurinn er stöðugt í gangi með lítið af hléum til að kasta mæðinni,“ segir dr. Carnethon en hún er dósent í lýðheilsu við Northwestern háskólann í Chicago. „Hann eykur loftfirrt þol þar sem eru stöðug hlaup, langir og stuttir sprettir þar sem reynir á styrk og úthald."

Fótboltakrakkar á fullu. Fótbolta er hægt að iðka langt fram á efri ár.

Þrek og úthald

Íþróttafræðimaðurinn Peter Krustrup, sem eytt hefur meira en 15 árum að rannsaka heilsuávinning fótboltaiðkunar, segir að leikurinn hjálpi við að draga úr kólesteróli og blóðþrýsting. „Fótbolti getur einnig hjálpað til við að brenna fitu og auka við vöðvamassa. Það þarf ekki að taka lengri tíma en 12 til 16 vikna þjálfun,“ segir hann. „Fótbolti er “multi-purpose” íþrótt sem sameinar þrek, styrk og hámarks úthald. Þú færð allt það besta úr þjálfun með því að spila fótbolta. Þrekið kemur úr „interval“ hlaupum inni á vellinum, úthaldið kemur líkt og í langhlaupi eða langri hjólaferð og rétt eins og við að lyfta lóðum eykst styrkur í stoðkerfi með því að spila fótbolta.“

Annar kostur yfir margar aðrar íþróttir er að það er hægt að byrja að iðka knattspyrnu hvenær sem er á lífsleiðinni á hvaða getustigi sem er. Fótbolti er ekki bara fyrir börn og unglinga.

Fótbolti sem forvörn

Krustrup hefur verið að rannsaka eldri knattspyrnumenn sem sumir eru að byrja í fótbolta á níræðisaldri. Niðurstaða hans er sú að þessir eldri, nýju, leikmenn fá sömu heilsufarslegu ávinninga og yngri, reyndari, leikmenn sem hafa spilað íþróttina í marga áratugi.

„Venjuleg hreyfing, hvort sem er með því að spila fótbolta eða eitthvað annað, getur hindrað marga undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Carnethon. „Hjartasjúkdómar, sykursýki og aðrir langvarandi sjúkdómar verða ekki til út af engu. Þeir þróast eftir óheilbrigðar lífsvenjur yfir mörg ár, “ segir hún. „Annar ávinningur af fótbolta er að það er hægt að spila ævilangt.“

Oft er litið á knattspyrnu sem „inngöngu íþrótt“ fyrir börn sem síðar geta fengið áhuga á að iðka aðrar íþróttir. Knattspyrna er tiltölulega ódýr íþrótt sem krefst stöðugrar virkni af iðkendum. Hún krefst líka minni tæknilegra hæfileika eins og til dæmis þarf í körfubolta.

„Fyrir marga getur fótbolti stuðlað að heilbrigðum lífsstíl frá unga aldri og komið í veg fyrir algenga lífsstílssjúkdóma,“ segir Carnethon.

Stuðningsmenn svitna

Pierre Barrieu, knattspyrnustjóri LA Galaxy, bendir á að fótbolti veitir líka frábæra andlega örvun og gleði sem fylgir félagsskap með öðrum iðkendum.

„Þetta er félagslegur leikur þar sem tvö 11 manna lið mætast. Það reynir á einstaklinga og samheldni liðsins. Það eru ekki margar íþróttir sem bjóða upp á einmitt þetta,“ segir Barrieu.

„Knattspyrna er svo heilbrigð íþrótt að jafnvel þeir sem horfa á leikinn úr stúkunni eru þátttakendur sem svitna með leikmönnum. Stuðningsmenn standa á fætur, hrópa, hvetja og hreyfa sig jafnvel með.“

____

Byggt á grein frá Health.com