Líkamleg áreynsla, til dæmis ganga eða hjóla í og úr vinnu í hálftíma á dag, getur skipt sköpum til að verjast krabbameini í ristli. Þetta er allavegana niðurstaða viðamikillar rannsóknar kínverskra vísindamanna sem rannsökuðu fólk á aldrinum 30 til 74 ára. Rannsóknarhópnum var skipt í tvennt á milli þeirra sem höfðu greinst með ristilkrabbamein og þeirra sem ekki höfðu greinst með það. Í ljós kom að þeir sem hreyfðu sig meira og gengu eða hjóluðu í og úr vinnu höfðu um helmingi lægri líkur á að mynda ristilkrabbamein en kyrrsetufólk eða þeir sem hreyfðu sig minna.
Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að þeir sem hjóla í meira en tvo tíma á dag draga úr líkum á að þeir fái ristilkrabbamein um heil 59% Þeir sem ganga rösklega í meira en hálftíma á dag draga úr sömu líkum um 43% Hér er því komin enn ein sönnun þess að það sé hollt að hreyfa sig.
Heimild: American Journal of Epidemiology