Það þarf ekkert að djöfla sér út í ræktinni alla daga til að fá þvottabretti á magann, segja vísindamenn. Alveg nóg er bara að gera eina góða magaæfingu á viku. Þessar gleðifregnir koma frá vísindamönnum á Spáni sem fara nú eins og eldur í sinu um líkamsræktarheiminn. Um hundrað manns tók þátt í rannsókn þeirra sem stóð yfir í sex vikur. Þeim var skipt í hópa sem gerðu magaæfingar einu sinni, tvisvar eða þrisvar sinnum á viku. Mælingar á magavöðvum hópanna fyrir og eftir sýndi, svo ekki var um villst, að jafn mikil aukning varð á magavöðvum hjá þeim sem gerðu æfingar einu sinni í viku, tvisvar sinnum eða þrisvar. Rannsakendur telja þess vegna að aðeins ein magaæfing á viku sé nóg til að ná góðum árangri.
Heimild: Journal of Sports, Medicine and Physical Fitness og tímaritið iForm.