Túrverkir eru krampar eða verkir í kvið og mjaðmagrind sem fylgja tíðablæðingum. Túrverkir eru mjög breytilegir, allt frá mildum í mjög mikla. Mildir túrverkir eru stundum vart greinanlegir, vara stutt og má lýsa sem léttum þyngslum í kviðnum. Miklir túrverkir geta aftur á móti verið svo slæmir að þeir trufla dagleg störf viðkomandi konu í nokkra daga. Á Vísindavefnum er áætlað að yfir helmingur allra kvenna finni fyrir túrverkjum í einhverri mynd og að þeir séu miklir hjá um 15% kvenna. Rannsóknir meðal unglingsstúlkna sýna að 90% þeirra segjast fá túrverki. Túrverkjum er skipt í tvær gerðir. Fyrsta stigs túrverkir stafa ekki af undirliggjandi vandamáli í æxlunarfærum og koma fyrst fram innan við hálfu ári frá upphafi blæðinga. Túrverkir byrja yfirleitt ekki fyrr en eftir egglos hefur átt sér stað í tíðahring en tíðir hefjast oft í fyrsta sinn áður en egglos hefur orðið. Annars stigs túrverkir stafa að miklu leyti af sjúkdómsástandi, oftast í æxlunarfærunum. Slíkir túrverkir koma stundum fram fljótlega eftir upphaf blæðinga en algengara er að þeir komi fram seinna á ævinni. Hver kona þarf sjálf að finna hvaða meðferð virkar best við túrverkjum. Ýmis ráð eru til við túrverkjum. Ekki er aðeins mælt með nægri hvíld og svefni heldur ekki síður reglulegri hreyfingu, einkum göngum. Sumum konum finnst kviðnudd, jóga eða kynferðisleg fullnæging hjálpa sér. Lagning hitapúða á kviðinn getur dregið úr sársauka og óþægindum. Til eru ýmis lyf sem fást án lyfseðils sem geta stillt verkina auk þess sem þau draga úr samdráttunum sjálfum. Fyrir milda verki duga magnýl og parasetamól ágætlega en magnýl hefur þó takmörkuð áhrif á myndun prostaglandína en það gerir parasetamól. Þau lyf sem mest eru notuð til að meðhöndla meðalsára túrverki eru bólgueyðandi lyf sem tilheyra ekki sterum. Í þeim flokki eru íbúfen og skyld lyf. Best er að taka þessi lyf inn áður en verkir verða slæmir.
Ef túrverkir eru mjög slæmir og ofantalin ráð og lyf duga ekki gæti læknir skrifað lyfseðil fyrir vægum skömmtum af getnaðarvarnarpillu sem inniheldur bæði estrógen og prógesterón (samsettar pillur). Með því að taka hana inn er komið í veg fyrir egglos og dregið úr myndun prostaglandína sem leiðir til að samdrættir og tíðaflæði minnkar. Talið er að túrverkir séu um helmingi fátíðari sé notuð getnaðarvarnalykkja sem losar smáa skammta af prógestíni beint í legholið. Aftur á móti geta koparlykkjur og aðrar lykkjur sem innihalda ekki hormón gert túrverki verri. Skurðaðgerðir koma til greina hjá konum með mjög alvarlega túrverki, allt frá sköfun legslímu til legnáms.
Nánar á Vísindavefnum.