Líkami

Sálfræðimeðferð eykur virkni bakverkjameðferða um 84%

Bakverkur er stöðugt vandamál hjá mörgum. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því. Slæm líkamsstaða, margra klukkustunda löng seta á hverjum degi, streita og streituvaldandi hreyfing geta valdið slæmum verkjum í baki.

Margir eru að drepast í bakinu allan liðlangan daginn. Nú er komin fram ný rannsókn sem sýnir fram á gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar. Mynd: Sasun Bughdarvan/Unsplash.

Sumir finna fyrir létti af bakverkjum með aukinni hreyfingu og styrktarþjálfun. Rannsakendur við Goethe háskólann í Frankfurt vildu vita hvaða meðfærð bæri mestan árangur.

Þeir komust að því að einstaklingsbundin meðferð ásamt hugrænni atferlismeðferð jók árangur sjúklinga um 84% miðað við almenna meðferð til að meðhöndla bakverki.

Safngreining rannsóknarinnar innihélt gögn úr 58 slembiröðuðum samanburðarrannsóknum sem tóku til yfir 10 þúsund sjúklinga um allan heim sem allir þjáðust af langvinnum verkjum í mjóbaki. Í rannsókninni var greint að hve miklu leyti hefðbundin meðferð var gagnleg og niðurstaða hennar borin saman við einstaklingsmiðaða meðferð.

Einstaklingsmiðuð meðferð fól í sér persónulega þjálfun hjá hverjum og einum sem tók tillit til þarfa einstaklingsins. Einnig var farið yfir rannsóknargögn hjá hópi fólks sem blandaði saman hugrænni atferlismeðferð og einstaklingsmiðaðri nálgun til að vinna bug á langvarandi verkjum í baki. Þessum hóp var hjálpað að takast á við sársaukann með því að draga úr neikvæðum hugsunum tengdum honum og minnt á að sjúklingar gætu haft aðra sýn á stöðu sína sem væri ekki vonlaus.

Hversu vel virkar einstaklingsmiðuð nálgun við bakverkjum?

Rannsóknarteymið komst að því að á fyrstu stigum rannsóknarinnar hafði einstaklingsmiðuð meðferð mun meiri áhrif á þá sem þjáðust af langvinnum bakverkjum en hefðbundin meðferð. Árangurinn var 38% betri. „Þó það þurfi að leggja meira á sig í einstaklingsmiðaðri meðferð þá er það þess virði vegna þess að sjúklingar njóta góðs að því marki sem er klínískt mikilvægt,“ er haft eftir í tilkynningu frá Dr. Johannes Fleckenstein, aðalhöfundi rannsóknarinnar frá Institute of Sport Sciences við Goethe-háskólann í Frankfurt.

Með því að nota hugræna atferlismeðferð jókst árangurinn við að ná verkjum niður um 84% samanborið við hefðbundnar verkjameðferðir. Dr. Fleckenstein hvetur heilbrigðisstarfsmenn að taka þessar niðurstöður alvarlegar í stefnumótun. Hann telur góðar líkur á að það gæti gerst í Þýskalandi í náinni framtíð.

„Í sambanburði við önnur lönd, eins og til dæmis Bandaríkin, þá stöndum við í Þýskalandi vel að vígi,“ er haft eftir Dr. Fleckenstein. „Sem dæmi má nefna þá ávísa læknar í Þýskalandi færri sterkjum verkjalyfjum gegn bakverkjum. Við tökum líka færri röntgenmyndir sem einnig geta stuðlað ónákvæmum ábendingum um skurðaðgerðir sem gætu verið óþarfar. Þó þessar meðferðir séu ekki eins arðbærar og lyfjameðferðir þá getur verkjameðferð með meira læknandi nálgun sparað heilbrigðiskerfinu háar upphæðir til lengri tíma litið.“

Niðurstöðurnar eru birtar í tímaritinu Pain.